fbpx

Það er til mikils að vinna minna

Styttri vinnuvika leiðir til meiri ánægju í starfi, aukinna afkasta og er lóð á vogarskálar aukins jafnréttis kynjanna. Heilsa og vellíðan batnar með styttri vinnudegi.

Styttri vinnuvika leiðir til meiri ánægju í starfi, aukinna afkasta, betri þjónustu og er lóð á vogarskálar aukins jafnréttis kynjanna. Heilsa og vellíðan batnar með styttri vinnudegi, öryggi starfsfólks verður meira, sem og þeirra sem nýta sér þjónustuna þar sem það á við.

Starfsfólk fær meiri tíma með fjölskyldu sinni og skil milli vinnu og einkalífs verða skýrari með betra skipulagi vinnutíma. Starfsumhverfið verður betra og það dregur úr fjarveru vegna veikinda. Starfsmannavelta minnkar og auðveldara er að ráða nýtt fólk á vinnustaðinn sem eykur samkeppnishæfni hans í samanburði við aðra vinnustaði.

Styttri vinnuvika felur í sér aukin lífsgæði starfsfólks og stuðlar að hamingjusamara samfélagi.

BSRB samdi um styttingu vinnuvikunnar í kjarasamningum sem undirritaðir voru í mars 2020. Vinnuvikan hjá dagvinnufólki styttist um allt að fjórar stundir í kjölfar samtals á hverjum vinnustað. Hjá vaktavinnufólki styttist vinnuvikan um fjórar stundir að lágmarki og í mesta lagi um átta stundir, en styttingin er mismunandi eftir því hvernig vaktir viðkomandi gengur.

Samkomulag um styttingu vinnuvikunnar kom ekki til af engu. BSRB hefur talað fyrir styttingu árum saman og unnið markvisst að því að undirbyggja kröfurnar.

Tilraunin og helstu niðustöður

BSRB hefur staðið fyrir tilraunaverkefnum um styttingu vinnuvikunnar í samvinnu við bæði ríkið og Reykjavíkurborg.

Niðurstöður verkefnanna sýna jákvæðan árangur af styttingunni. Mælingar sýna marktækt betri líðan og aukna starfsánægju. Framleiðni hélst óbreytt þrátt fyrir styttri vinnutíma.

Skammtímaveikindi drógust saman. Dregið hefur úr andlegum og líkamlegum einkennum álags. Dregið hefur úr kulnun. Líðan bæði heima og í vinnunni hefur batnað.

Í menningunni … er vinnandi maður duglegur maður … erum kannski farin að missa svolítið sjónar á að lífið snýst ekki bara um vinnuna. Vinnumenningin felur í sér að vinna lengi en nú [með styttingu vinnutíma] þarf taka upp nýja siði.

Þátttakandi í tilraunaverkefni

Vinna er vani - ekki hanga í vinnunni

Ein af niðurstöðunum úr tilraunaverkefninu um styttingu vinnuvikunnar var að sumir vinni mikla yfirvinnu, án þess að fá greitt fyrir hana, hreinlega af vana. Þetta sé kúltúr sem erfitt sé að breyta. Fordæmi stjórnenda skiptir þarna miklu máli.

Viðmið um vinnusemi hafa breyst úr áherslu á lengd vinnutíma í afköst á vinnutíma. Yngri kynslóðir Íslendinga kjósa að vinna styttri vinnutíma og eiga meiri tíma fyrir tómstundir og fjölskylduna. Eldri kynslóðirnar eiga erfiðara með að stytta vinnutímann að hluta til vegna kynslóðarmunar í viðhorfum. Það er erfitt að uppræta gömul gildi en áður þótti mikil dyggð að vinna lengi.

Íslensk vinnumenning hefur einkennst svolítið af því að hanga í vinnunni lengi í staðinn fyrir að vinna bara á fullu í stuttan tíma og drífa sig svo heim.

Þáttakandi í tilraunaverkefni

Ekki náttúrulögmál að vinna átta tíma á dag

Það er engin augljós ástæða fyrir því að fullt starf feli í sér átta tíma vinnudag og 40 stunda vinnuviku. Það er ekkert sem bendir til þess að sá vinnutími sé hagkvæmastur. Né að það sé best fyrir heilsu fólks eða hagvöxt. Þessi lengd vinnuvikunnar byggir á kröfum stéttarfélaga við lok 19. aldar þar sem langflest störf voru verksmiðjustörf og störfin mjög lík. Íslandi náði þó ekki þeim áfanga fyrr en árið 1971. 

Vinnumarkaður dagsins í dag hefur gjörbreyst, tækniframfarir hafa verið gríðarmiklar og fjölbreytni starfa er mikil. Sum þeirra eru þess eðlis að það er hægt að vinna þau í 40 tíma á viku án þess að það hafi skaðleg áhrif á meðan önnur stofna heilsu fólks í hættu sé unnið svo lengi. Spurningin er hins vegar sú hvort við ættum ekki frekar að ákveða lengd vinnuvikunnar miðað við þekkingu dagsins í dag og nútímasamfélag í stað samfélagsins eins og það var fyrir 50 árum.

Í síðustu kjarakönnun BSRB kom fram skýr vilji fólks til að vinna minna. Vinnan hafi neikvæð áhrif á samverustundir með fjölskyldu, fólk upplifir þreytu og álag í störfum sínum. Áhrifin eru sú að veikindadögum fjölgar og langvarandi fjarvistir frá vinnu vegna álagstengdra veikinda hafa aukist.

Stefnan

Stefna BSRB er að lögfesta þurfi styttingu vinnuvikunnar í 35 stundir í dagvinnu og að vinnuvika vaktavinnufólks verði 80% af vinnutíma dagvinnufólks án launaskerðingar. Í kjarasamningunum sem undirritaðir voru í mars 2020 var komist mjög nálægt þessu markmiði þegar samið var um styttingu í allt að 36 stundir hjá fólki í dagvinnu og allt að 32 stundir hjá vaktavinnufólki.

Gæðastundir með fjölskyldunni

Margir þátttakendur í tilraunaverkefnum um styttingu vinnuvikunnar upplifðu það oft áður en vinnuvika þeirra styttist að vera búnir á því í lok vinnuvikunnar en segja að það hafi breyst eftir að vinnuvikan var stytt. Þeir segjast mun síður þreyttir eftir vinnudaginn og hafa meiri orku til að gera hluti með fjölskyldunni á virkum dögum og um helgar ásamt því að hafa meiri tíma fyrir sjálfa sig.

Mikið álag er á barnafjölskyldum og mörgum reynist erfitt að sinna bæði vinnu og einkalífi þannig að vel sé. Styttri vinnuvika auðveldar barnafjölskyldum að samræma vinnu og einkalíf og minnka álag sem er á heimili, sér í lagi tengt skutli barna í skóla og tómstundir, og foreldrar telja sig síður þurfa að biðja aðra um sækja börnin sín eða skutla. Sérstaklega var nefnt að stytting vinnuvikunnar hjálpar til við að láta púsluspilið ganga upp sem létti á heimilinu. Gæðastundum fjölskyldna fjölgaði og þátttakendur upplifðu sig afslappaðri og rólegri og höfðu samskipti við vinnufélaga og fjölskyldumeðlimi batnað. Þannig dró úr streitusamskiptum vegna þess að álagið er minna á heimilið.
Ömmur og afar nefndu líka aukinn gæðatíma með barnabörnum en einnig nefndi fólk að það hefði meiri tíma til að sinna eldri ættingjum.

Þetta eykur líkur á að konur geti unnið í staðinn fyrir að vera í einhverju bölvuðu basli að ná öllu saman. Þetta eykur jafnrétti kynjanna finnst mér og bara andlega heilsu, fjölskyldulíf og tengsl við börnin.

Þátttakandi í tilraunaverkefni

Minna álag

Hraðinn, kröfurnar og streita hefur aldrei verið meiri á vinnumarkaði sem tekur sinn toll af starfsfólki. Tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar hjá starfsmönnum Reykjavíkurborgar sýnir að vinnutengt álag minnkaði um 1,6% þegar stytting jókst um eina klukkustund. Einstaklingar sem fá þrjár klukkustundir í styttingu á viku finna því fyrir um 5% minna af vinnutengdu álagi að jafnaði.

Í ljósi aukningar á tilfellum sjúklegrar streitu og kulnunar í starfi er til mikils að vinna að efla andlega vellíðan starfsmanna. Eitt algengasta ráðið við streitu á vinnustað fyrir utan endurskoðun starfsumhverfis er að skapað sé svigrúm til að starfsfólk hvílist, sinni áhugamálum, stundi líkamsrækt, útiveru og skýr skil séu sett milli vinnu- og einkatíma. Bent hefur verið á að samþætting heimilis og vinnu sé heilsufarslega mikilvægt verkefni vegna mikils álags því tengdu á nútímafjölskyldur. Enn fremur að ójafnvægi þar á milli getur aukið líkurnar á hjarta- og æðasjúkdómum, krabbameini, offitu og sykursýki.

Sænsk rannsókn sýnir fram á fylgni sex tíma vinnudags og betri svefns ásamt minni streitu. Skortur á endurheimt getur leitt til ofþreytu og svefntruflana en besta lausnin við þeim anda er aukinn frítími. Eftir að tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar hafði staðið í átján mánuði var niðurstaðan skýr og ljóst að starfsfólk svaf betur og lengur.

Tími til að sinna sjálfum sér

Margir sem hafa upplifað styttingu vinnuviku á eigin skinni nefna að það feli í sér mun meiri lífsgæði en þau áttu von á í byrjun. Einnig fundu starfsmenn að þeir hefðu meiri tíma fyrir sig sjálf og bættri andlegri og líkamlegri heilsu. Enn fremur höfðu þau meiri orku í félagslíf eða til að stunda heilsurækt.

Misjafnt var í hvað fólk notaði tímann sem sparaðist við styttinguna en margir nefndu að þau nái frekar að gera hluti sem þau njóti að gera. Sem dæmi má nefna nefna tómstundir, félagslíf, að sinna foreldrum og öðrum ættingjum, sjálfsrækt og þrif áður en aðrir heimilismeðlimir komi heim og ganga til og frá skóla með börnunum. Almennt jókst starfsánægja þátttakenda að mati viðmælenda, sem að þeirra sögn smitaðist út í betri þjónustu.

„Það skiptir svo miklu máli að hafa tíma til þess að sinna sjálfum sér. Þáttakendur voru sammála um það að við styttingu jókst starfsánægja sem að þeirra sögn smitaðist út í betri þjónustu.“

Ónefndur þátttakandi í tilraunaverkefni

Aukið jafnrétti

Stytting vinnuvikunnar getur stuðlað að auknu jafnrétti kynjanna. Almennt er það þannig í samfélaginu að konur eru líklegri til þess að minnka við sig vinnu til þess að sinna börnum og heimilisstörfum, sem hefur neikvæð áhrif á laun þeirra og framgang í starfi. Stytting vinnuvikunnar er því líkleg til þess að stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði og inni á heimilinu.

Styttri vinnuvika getur stuðlað að aukinni atvinnuþátttöku kvenna, dregið úr því að konur sæki í hlutastörf og stuðlað að jafnari ábyrgð á umönnun barna og heimilisstörfum. Styttri vinnuvika getur leitt til þess að fleiri velji sér fullt starf og fái þar af leiðandi 100% laun ásamt aukningu á starfshlutfalli og auknum launum þeirra sem hafa hingað til valið sér hlutastarf hvort sem er vegna fjölskylduábyrgðar eða veikinda. Það mun hafa áhrif á tekjur kvenna á atvinnumarkaði, en einnig á greiðslur úr lífeyrissjóði eftir að starfsævinni er lokið.

Leiðin til hamingju og hagsældar felst í því að draga skipulega úr vinnu

Hvernig meturðu verðmæti? Minna álag og aukin orka starfsfólks í leik og starfi er staðreynd með styttri vinnuviku.

19%
minni streita
15%
minna álag
20%
minni árekstrar vinnu og einkalífs
21%
minni einkenni kulnunar

Það er ekki eftir neinu að bíða

Á endanum náðu tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar til 2.200 starfsmanna Reykjavíkurborgar og 460 starfsmanna ríkisins á fimm vinnustöðum.

Niðurstöðurnar voru áfram jákvæðar eftir þrjú ár hjá borginni og tvö ár hjá ríkinu. Þær voru jákvæðari en búist var við. Vinnustundum var fækkað um fjórar hjá ríkinu og upphaflega um 4-5 klukkustundir hjá borginni. Minna álag, minni veikindafjarvera og aukin orka starfsfólks í leik og starfi er staðreynd.

„Í menningunni … er vinnandi maður duglegur maður … erum kannski farin að missa svolítið sjónar á að lífið snýst ekki bara um vinnuna. Vinnumenningin felur í sér að vinna lengi en nú [með styttingu vinnutíma] þarf taka upp nýja siði.“

Ónefndur þátttakandi í tilraunaverkefni

Umhverfisáhrif

Fjölmörg rök eru fyrir því af hverju styttri vinnuvika getur stuðlað að jákvæðum umhverfisáhrifum. Í fyrsta lagi eru tengsl milli langrar vinnuviku og skaðlegra neysluvenja á umhverfið. Langur vinnutími og lítill frítími leiðir til þess að einstaklingar velja frekar skjótvirkar lausnir til að flýta fyrir sér sem hefur slæm áhrif á umhverfið. Þá hefur stytting vinnuvikunnar það í för með sér að vinnudegi lýkur á ólíkum tímum sem dregur úr umferð á háannatíma og minnkar umferðateppur.

„Það er samhljómur í borginni, já eða bara landinu, að fólk vill geta hætt að vinna fyrr á daginn …. er ánægður með að þetta sé komast í framkvæmd.“

Ónefndur þátttakandi í tilraunaverkefni