Ertu enn að efast?
Afvopnaðu andstæðingana strax í upphafi. Hér förum við yfir helstu mótbárur og rök.
Þetta hefur alltaf verið svona
Átta tíma vinnudagur er tiltölulega nýtt fyrirbæri sem var fundið upp af velskum iðnrekanda að nafni Robert Owen sem ákvað að það væri góð hugmynd að skipta deginum upp í þrennt; átta tímar í vinnu, átta tímar í frítíma og átta tímar í hvíld. Þetta var fyrir 200 árum. Owen lifði ekki að sjá draum sinn um styttri vinnudag rætast.
Lög um 40 stunda vinnuviku voru samþykkt á Alþingi árið 1971 en í þeim stóð að að jafnaði skyldu unnar átta klukkustundir í dagvinnu á degi hverjum frá mánudegi til föstudags. Fyrir þann tíma var eðlilegt að sækja skóla og stunda vinnu á laugardögum.
Þetta gæti aldrei gengið hjá okkur.
Það er fjölbreytt flóra fyrirtækja og stofnana sem hefur látið reyna á styttingu vinnuvikunnar eða tekið hana upp til frambúðar með góðum árangri. Þetta eru bæði erlend og innlend fyrirtæki; meðal annars Embætti ríkisskattstjóra, Útlendingastofnun, Þjóðskrá, Lögreglan á Vestfjörðum, Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts, Barnavernd Reykjavíkur og leikskólinn Hof, Hugsmiðjan og Toyota í Svíþjóð.
Þetta hefur ekki áhrif fyrr en eftir langan tíma.
Eftir aðeins sex mánuði af styttri vinnutíma upplifði starfsfólk í tilraunaverkefni BSRB meiri lífsgæði og betri nýtingu á tíma eftir að vinnu lýkur. Stytting vinnutíma dregur úr upplifun af streitu og álagi í daglegu lífi, sérstaklega meðal fólks með ung börn.
Niðurstöður eftir fyrsta árið benda til þess að árangur af verkefninu sé afar jákvæður. Mælingar sýna marktækt betri líðan, aukna starfsánægju og minni veikindi.
Það er ekki hægt að klára allt sem þarf að gera á styttri tíma.
Með styttingu vinnutímans hjá ríkisstofnunum jókst sveigjanleiki starfsfólks til að sinna þörfum barna og sjálfum sér. Að mati starfsfólks voru afköstin í starfi þau sömu eftir styttinguna. Það hefði dregið úr skreppi á vinnutíma. Kaffitímar hefðu styst og það væri minna farið úr húsi í hádeginu af því að starfsfólkið hefði tíma til að skjótast á heimleiðinni.
Að mati stjórnenda vann starfsfólk hraðar og lagði meira af mörkum.
Þetta veldur allt of miklu álagi á starfsfólk og óánægju.
Það álag sem starfsfólk sem tók þátt í tilraunaverkefnum um styttingu vinnuvikunnar hjá ríkinu upplifði dróst saman um 15% frá því verkefnið hófst á meðan álagið á vinnustöðum þar sem vinnutíminn er óbreyttur jókst lítillega.
Að sama skapi dró úr andlegum streitueinkennum um 19% á meðan þau jukust um nærri átta prósent á samanburðarvinnustöðunum.
Þá hafði starfsánægja aukist umtalsvert á meðan hafði heldur dregið úr henni á samanburðarvinnustöðvunum og starfsandinn hafði batnað.
Það er svo erfitt að leiða breytingar.
Fyrirtæki og stofnanir sem hafa stytt vinnuvikuna hafa mörg aukið framleiðni og haft af því margvíslegan ávinning. Þetta er ekkert nýtt og framsýn fyrirtæki hafa lengi hagnast á því að vera fyrst að taka skrefið inn í framtíðina.
Þann 5. janúar 1914 ákvað bandaríski bílaframleiðandinn Ford að tvöfalda kaup starfsfólks í fimm dali á dag og stytta vaktir úr níu tímum í átta tíma. Þetta var mjög óvinsælt hjá keppinautum Ford en eftir að þeir urðu vitni að bæði framleiðni- og tekjuaukningu, fylgdu þeir flestir í kjölfarið.
Ég get ekkert gert til að láta þetta gerast.
Það þarf þáttöku starfsmanna til að útfæra styttingu vinnutíma en ekki fer vel á því að það verkefni sé leyst aðeins af stjórnendum. Hér er um að ræða frábært tækifæri fyrir starfsmenn til þess að taka frumkvæði og benda á þau tækifæri sem eru til hagræðingar í starfsumhverfinu í stað þess að bíða eftir að stjórnandinn leggi lausnina á borðið, að sögn Ragnheiðar Agnarsdóttur, eiganda Heilsufélagsins, sem hefur hjálpað fyrirtækjum við styttingu vinnutíma.
Mér finnst svo gaman í vinnunni.
Þú verður ennþá ánægðari í vinnunni með styttri vinnutíma. Eftir að tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar hafði staðið í 12 mánuði hjá ríkisstofnunum kom í ljós að fólki leið betur í vinnunni, starfsfólk vann hraðar, lagði meira af mörkum, tók styttri pásur og fann fyrir aukinni samhjálp og samstarfi.