fbpx

Svona innleiðumvið styttri vinnuviku

Samningar eru í höfn, vinnan er hafin og þú getur haft áhrif á útkomuna með því að kynna þér þinn rétt og koma óskum þínum á framfæri. Heimilt er að stytta vinnuvikuna í allt að 32 virkar vinnustundir á viku. Sjáðu hvernig við ætlum að vinna að því saman - til hagsbóta fyrir alla. Read More
1. júní - september 2020
1

Undirbúningur af hálfu samningsaðila

Stytting vinnuviku í vaktavinnu og breytingar á vaktavinnufyrirkomulagi eru umfangsmiklar og krefjast töluverðs undirbúnings. Meðal annars þarf að undirbúa fræðslu, kortleggja fjölbreytta vaktavinnustaði, vinna leiðbeiningar að breytingum á vaktkerfum, tryggja mönnun og uppfæra tímaskráningarkerfi.

Í kjarasamningum 2020 var samið um styttingu vinnuviku vaktavinnufólks hjá ríki og sveitarfélögum úr 40 stundum í 36. Þá er hægt að stytta vinnuvikuna í allt að 32 stundir ef unnið er allan sólarhringinn. Samhliða þessu tekur launamyndunarkerfi vaktavinnufólks breytingum og á mörgum vinnustöðum mun vaktaskipulagið einnig taka breytingum. Þannig getur orðið breytilegt hvort að vaktir verði felldar út vegna styttingar, eða vaktir styttar daglega eða stöku sinnum. Það mun taka mið af því hvaða möguleikar eru fyrir hendi með tilliti til meðal annars um hvers konar starfsemi er að ræða og mönnunar. Markmiðið með breytingunum er að bæta heilsu og líðan starfsfólks og þannig bæta þá þjónustu sem er veitt án þess að laun lækki.

Áður en breytingarnar taka gildi þarf ýmis undirbúningur að fara fram. Samningsaðilar, fulltrúar launafólks, ríkis og sveitarfélaga ásamt sérstakri verkefnastjórn mun undirbúa og vinna að innleiðingu breytinganna í samstarfi við vinnustaðina og útbúa fræðsluefni og leiðbeiningar. Stytting vinnutíma á ekki að fela í sér launalækkun en breytingarnar eru umfangsmiklar og hjá flestum þarf því að aðlaga vinnuumhverfið að nýju kerfi svo sem með breytingum á vaktafyrirkomulagi. Flestir vinnustaðir þurfa að ráða inn nýtt fólk til að brúa bilið sem skapast af styttingunni. Starfsfólk sem hingað til verið í lægra en 100% starfshlutfalli getur eftir breytingar unnið jafnmarga tíma á viku en hækkað starfshlutfall sitt og þannig hækkað laun sín.

1. október 2020
2

Fræðsla fyrir starfsfólk og stjórnendur

Til þess að tryggja að breytingarnar verði innleiddar á sem bestan hátt og að allir sem málið varða skilji breytingarnar og geti tekið þátt í innleiðingarferlinu verður starfsfólki, launafulltrúum, vaktasmiðum og stjórnendum boðið að taka þátt í fræðslu og námskeiðum.

Í fræðslunni verður farið yfir markmið breytinganna, og eins verður fjallað um þá þætti sem snúa að ólíkum hópum. Starfsmenn fá fræðslu um nýtt launamyndunarkerfi, hvíldartíma og fleira, á meðan stjórnendur fá fræðslu í því hvernig á að innleiða breytingar. Markmið fræðslunnar er að tryggja faglega og skilvirka innleiðingu, og undirbúa starfsfólk og stjórnendur til þess að taka þátt í samtali um betri vaktavinnustaði.

Nóvember 2020 – janúar 2021
3

Umbótasamtöl á vinnustöðum

Stjórnendur og starfsfólk ræða um nýtt fyrirkomulag vaktavinnu og meta hvort gera þurfi einhverjar breytingar á vinnufyrirkomulagi. Ýmis tækifæri felast í nýja kerfinu og því mikilvægt að allir taki þátt í samtali um hver sóknarfærin eru og hvað henti best bæði starfsfólki og vinnustaðnum í nýju skipulagi vinnutíma.

Stytting vinnuviku vaktavinnufólks verður gerð með miðlægum hætti. Þó getur verið að aðlaga þurfi vaktakerfi á einstökum vinnustöðum að breytingunum, t.d. með því að breyta lengd vakta eða láta vaktarúlluna ganga upp á lengri eða skemmri tíma en áður.

Markmið breytinganna eru þríþætt. Öryggi starfsfólks og þjónustuþega, heilsa starfsmanna og betra jafnvægi vinnu og einkalífs. Rannsóknir hafa sýnt að vaktavinnufólk er í aukinni áhættu á að fá ýmsa sjúkdóma. Þá hefur vinna á mismunandi tímum sólarhringsins slæm áhrif á svefn fólks og það getur haft í för með sér verri heilsu. Vinna á óreglulegum tímum gerir einnig fólki erfiðara fyrir að eiga félags- og fjölskyldulíf. Æskilegt er að starfsfólk og stjórnendur ræði í sameiningu hvernig innleiða megi breytingarnar með þessi markmið að leiðarljósi. Til dæmis geta falist tækifæri í því að innleiða óskavaktakerfi, þar sem starfsfólk getur sjálft stjórnað vinnutíma sínum að einhverju leyti. Þá skiptir miklu máli að útfæra vaktakerfi þannig að komið sé í veg fyrir til dæmis of stutta hvíld á milli vakta eða of langra vakta.

15. janúar 2021
4

Starfsfólk í hlutastarfi

Starfsfólki í hlutastarfi verður boðið að hækka starfshlutfall sitt. Þeir sem vinna minna en 100% geta unnið áfram svipaðan tímafjölda og áður en í hærra starfshlutfalli. Með því hækka laun þeirra umtalsvert, og þar með ævitekjur og lífeyrir.

Á flestum vaktavinnustöðum er veitt þjónusta á ákveðnum tíma dags, eða jafnvel allan sólarhringinn. Þrátt fyrir styttingu vinnutímans mun þurfa að manna starfsemina á sama tíma og áður.

Stytting vinnutíma vaktavinnufólks er ólík styttingu vinnutíma dagvinnufólks. Hjá dagvinnuhópum er gert ráð fyrir því að starfsfólk og stofnanir geti yfirfarið verklag og endurskipulagt starfsemi með þeim hætti að ekki verði skerðing á þjónustu eða afköstum. Hjá vaktavinnustofnunum er augljóst að áfram verður að manna allar vaktir. Því myndast svokallað mönnunargat þegar stytting vinnutíma vaktavinnufólks tekur gildi. Launagreiðendur á opinberum markaði ætla að standa straum af þeim kostnaði sem af þessu hlýst, en hann getur verið töluverður. Hækki starfsfólk í hlutastarfi starfshlufall sitt er hægt að manna hluta þeirra stöðugilda sem losna en ráða þarf inn nýtt fólk til að brúa bilið að öðru leyti.

Margar vaktavinnustéttir vinna erfið störf, sérstaklega í almannaþjónustunni. Stór hluti vaktavinnufólks vinnur hlutastörf vegna þessa til að vinna gegn neikvæðum áhrifum vaktavinnu á heilsu sína og til að auðvelda samþættingu vinnu og einkalífs. Með breytingunum er viðurkennt að 100% starf vaktavinnufólks er of þungt og því er vinnuvikan stytt um 10% eða í 36 stundir fyrir alla í fullu starfi og hlutfallslega fyrir þá sem eru í lægra starfshlutfalli. Þar til viðbótar geta þeir sem vinna þrískiptar vaktir, sem geta fallið á alla daga ársins í fullu starfi, náð enn meiri styttingu eða niður í 32 stundir.

Þegar vinnutímastyttingin tekur gildi verður öllu starfsfólki í hlutastarfi boðið að hækka starfshlutfall sitt sem nemur vinnutímastyttingunni. Þetta hefur í för með sér launahækkun, í einhverjum tilvikum umtalsverða, og ævitekjur og á endanum lífeyrisgreiðslur vaktavinnustétta hækka. Algengara er að stéttir þar sem meirihluti starfsfólks eru konur séu í hlutastarfi. Nýtt vaktavinnukerfi mun því jafnframt stuðla að auknu jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.

1. febrúar 2021
5

Innleiðingu lokið og nýtt vinnufyrirkomulag liggur fyrir

Þann 1. febrúar 2021 verður búið að bjóða öllu starfsfólki í hlutastarfi hærra starfshlutfall og ákveða með hvaða hætti vaktakerfið tekur breytingu, ef þess gerist þörf.

1. maí 2021
6

Styttri vinnuvika vaktavinnufólks tekur gildi! Vinnutími alls vaktavinnufólks miðað við fullt starf er 36 tímar á viku og getur farið niður í 32 ef vaktabyrðin er þung.