fbpx

Stytting lýðræðislegt samtal

Stytting vinnuvikunnar fer fram í samtali starfsfólks og stjórnenda á hverjum vinnustað fyrir sig. Það er mikilvægt að starfsmenn taki þátt í þessu lýðræðislega samtali og nýti sitt atkvæði til þess að hafa áhrif á útfærsluna.

Þó samtalið um styttingu vinnuvikunnar hjá ríki og sveitarfélögum sé langt komið á mörgum vinnustöðum er vinnan enn í gangi eða rétt að hefjast hjá öðrum. Það er afar mikilvægt að sem flestir starfsmenn taki þátt í þessu lýðræðislega samtali á vinnustaðnum enda ekki stjórnenda einna að ákveða hversu mikil styttingin er eða hvernig hún verður útfærð heldur starfsmanna og stjórnenda í sameiningu.

Stytting vinnuvikunnar er mikil kjarabót en útfærslan á dagvinnustöðum er látin í hendurnar á hverjum vinnustað fyrir sig. Það er gert vegna þess að á sama tíma og vinnuvikan verður stytt getur þurft að endurskoða vinnuferla og verkefni til að hægt sé að afkasta jafn miklu á skemmri tíma. Þar sem enginn þekkir verkefnin betur en fólkið sem sinnir þeim er það líka best til þess fallið að taka ákvörðun um styttinguna.

Styttingin á að taka gildi 1. janúar 2021 á dagvinnustöðum og því ætti þetta lýðræðislega samtal sem á að eiga sér stað á hverjum vinnustað að vera hafið. Eins og kemur fram í leiðbeiningum frá BSRB og atvinnurekendum er það ekki stjórnenda að ákveða einhliða hvernig fyrirkomulagið verður heldur á að ræða það á fundi starfsmanna. Þar er mikilvægt að starfsmenn nálgist verkefnið af opnum huga og sleppi höndunum af fyrir fram gefnum skoðunum um að þetta sé erfitt eða ekki hægt.


Þú getur haft áhrif á útfærsluna

Eftir þann fund tekur við vinna við að útfæra styttinguna út frá hugmyndum starfsmanna og að kynna útfærslur á vinnustaðnum. Vinnutímanefnd, þar sem sitja fulltrúar starfsmanna, heldur utan um tillögurnar og vinnur að útfærslum. Að lokum er svo kosið um niðurstöðuna á vinnustaðnum svo það eru í raun starfsmennirnir sem ráða niðurstöðunni í þessu lýðræðislega ferli.

Eins og samið var um í kjarasamningunum er heimilt að stytta vinnuvikuna niður í 36 stundir, sem er fjögurra stunda stytting á viku. Algjört lágmark er að stytta um 13 mínútur á dag, sem þýðir aðeins um 65 mínútna styttingu á viku. Lengd styttingar ræður úrslitum um hvort megi ná fram þessum jákvæðu áhrifum sem hér hefur verið lýst. Þannig er ljóst að rúmlega klukkutíma stytting vikulega breytir litlu um lífsgæði starfsfólks en fjögurra stunda stytting mun auka lífsgæði, ánægju í starfi og bæta heilsu starfsfólks. Þess vegna er mikilvægt að það sé starfsfólkið sjálft sem tekur þessa ákvörðun, ekki stjórnendur einhliða.

Á þeim vinnustöðum þar sem vinnan hefur gengið sem best er þegar búið að útfæra styttinguna og starfsmenn hafa þegar komist að lýðræðislegri niðurstöðu. Í mörgum tilvikum hefur niðurstaðan verið sú að fara í mestu mögulegu styttingu, úr 40 stunda vinnuviku í 36 stundir.

Þessi samtöl eiga sér eingöngu stað á vinnustöðum þar sem unnið er í dagvinnu. Stytting vinnuvikunnar tekur gildi síðar á vinnustöðum þar sem unnið er í vaktavinnu. Þar styttist vinnutíminn frá og með 1. maí 2021 og útfærslan gerð miðlægt í stað þess að starfsmenn taki ákvörðun, enda getur reynst þörf á að breyta vaktakerfum og jafnvel bæta við starfsfólki til að styttingin gangi upp.

Þú gætir haft áhuga á þessu

Stytting styrkir tungumálið...

Lesa meira

Meiri orka fyrir heilsurækt...

Lesa meira

Meiri tími með börnunum...

Lesa meira