fbpx

Kaffipásur ekki á útleið

Matar- og kaffitímar eru eitt af því sem þarf að ræða sérstaklega og útfæra á hverjum vinnustað við styttingu vinnuvikunnar. Hér er farið yfir það hvaða breytingar eru fólgnar í því gefa eftir forræði á matar- og kaffitímum og hvernig það kemur ekki í veg fyrir matartíma og kaffipásur.

Eitt af því sem þarf að ræða á hverjum vinnustað í tengslum við styttingu vinnuvikunnar er fyrirkomulag matar- og kaffitíma. Hægt verður að stytta vinnuvikuna um allt að fjórar klukkustundir á viku en að lágmarki um 65 mínútur og fyrirkomulag matar- og kaffitíma getur verið mismunandi eftir því hversu mikið verður stytt.

Vonandi verður ákveðið að stytta vinnuvikuna um hámarkið, 4 klukkustundir, á sem flestum vinnustöðum. Til þess að það geti gengið þarf að endurskoða matar- og kaffitíma. Í dag eru kaffihlé samtals 35 mínútur yfir daginn og teljast þau hluti af vinnutíma. Matartímar teljast hins vegar ekki hluti af vinnutímanum. Þetta þýðir að taki starfsmaður 30 mínútur í mat ætti vinnutíminn að vera til dæmis frá klukkan 8 til 16:30.

Eðlilegt að starfsmenn fái pásur

Á undanförnum árum hefur þróunin á fjölmörgum vinnustöðum þar sem unnið er í dagvinnu verið sú að starfsmenn nota launaða kaffitíma í hádeginu, taka 35 mínútur í hádegismat og vinna þannig til dæmis frá klukkan 8 til 16. Það þýðir ekki að starfsmennirnir hafi ekki fengið að taka neinar pásur fyrir eða eftir hádegi. Enda væri það skelfileg stjórnun á vinnustað að ætlast til þess að starfsmenn fái aldrei að taka pásur. Raunin hefur því verið sú að starfsmenn geta tekið hlé frá vinnu, spjallað við vinnufélaga og fengið sér kaffibolla bæði fyrir og eftir hádegi. Þau hlé hafa þó ekki verið tímasett sérstaklega, heldur taka starfsmennirnir pásur þegar það hentar miðað við þau verkefni sem unnið er að.

 

Við styttingu vinnuvikunnar verður fyrirkomulag líkt því sem hér er lýst tekið upp á vinnustöðum þar sem hámarks stytting verður tekin. Starfsmenn gefa eftir forræði á matar- og kaffitímum, sem þýðir að þeir geta ekki notað þennan tíma til að sinna einkaerindum eða fara úr húsi þó þeir geti auðvitað farið á kaffistofu eða í mötuneytið á sínum vinnustað eins og áður. Þeir munu áfram fá kaffitíma og matarhlé, rétt eins og lýst var hér að ofan.

Endurskoðun þýðir ekki að starfsmenn fái aldrei að taka pásur. Starfsmenn geta áfram tekið hlé frá vinnu, spjallað við vinnufélaga og fengið sér kaffibolla bæði fyrir og eftir hádegi.

Hér þarf sérstaklega að huga að þeim starfsmönnum sem eru með fasta viðveru. Þetta getur til dæmis verið starfsfólk í móttöku og fólk sem vinnur þjónustustörf af ýmsu tagi, til dæmis í grunnskólum, leikskólum og við ýmiskonar umönnun. Ræða verður sérstaklega um þessa hópa þegar starfsfólk á vinnustaðnum ræðir um útfærslu styttingar vinnuvikunnar. Þar mætti til dæmis hugsa sér að búið verði til einhverskonar kerfi til að tryggja þessu starfsfólki afleysingu til að það geti tekið eðlileg matar- og kaffihlé. Þá þarf einnig að ræða sérstaklega hópa sem vinna líkamlega erfiða vinnu og þarf eðlilega hvíld til að geta sinnt sínum störfum út vinnudaginn.

Styttingu vinnuvikunnar fylgja ýmsar áskoranir en það er mikilvægt að starfsfólk taki þessu ferli af opnum hug til að tryggja að stærsta breytingu á vinnutíma í nærri hálfa öld gangi vel fyrir sig. Það er hagur okkar allra.

Þú gætir haft áhuga á þessu

Meiri tími með börnunum...

Lesa meira

Munar um að geta sótt fyrrá leikskólann...

Lesa meira

Enginn vinnur átta tíma á dag...

Lesa meira