fbpx

Enginn vinnur átta tíma á dag

„Enginn vinnur átta tíma á dag en samt erum við einhvern veginn alltaf í vinnunni,“ segir Steinar Þór Ólafsson, markaðstjóri Skeljungs. Staðreyndin er sú að nú geta margir unnið hvar sem er, svarað tölvupósti uppi í rúmi en á sama tíma er fólk fast í átta tíma vinnudagsskipulagi.

Steinar hefur velt skrifstofumenningu rækilega fyrir sér og haldið fyrirlestra um málefnið.

„Það sést best á því að eiginlega öll dæmi þar sem farið hefur verið út í að stytta vinnudaginn hafa komið vel út. Skreppið dettur út og kannski teknir færri kaffitímar,“ segir Steinar í viðtali sem birtist í Fréttablaðinu.

Hann nefnir frægt dæmi Hugsmiðjunnar þar sem starfsfólk mætir níu og fer hálf fjögur, þannig að eftir stendur tími til að fara í ræktina eða búðina, sækja og skutla börnum.

Þetta er lóð á fjölskylduvogina í leitinni að gullna jafnvæginu milli vinnu og einkalífs.

 Ég hef ekki enn þá hitt neinn sem segir – við þurfum að vinna lengur, vera á fleiri fundum og senda fleiri pósta á kvöldin.

„Þetta er svo frábær málstaður að verja. Ég hef ekki enn þá hitt neinn sem segir – við þurfum að vinna lengur, vera á fleiri fundum og senda fleiri pósta á kvöldin. Ég hef ekki hitt þennan mann, ég held hann sé ekki til,“ sagði Steinar ennfremur.

Viðvera ekki sama og afköst

Viðvera í vinnu er ekki endilega það sama og afköst. „Það sem öll fyrirtæki eru frábær í að framleiða á skrifstofunni er truflun. Þetta er svo óáþreifanlegt, fólki finnst oft að ef þú ert ekki í húsi sértu ekki að vinna, en svo geturðu verið í húsi og verið truflaður allan daginn og nærð ekki fókus eða dýpt í það sem þú ert að gera,“ segir Steinar en mismunandi er eftir fyrirtækjum hversu auðvelt það er fyrir starfsfólk að sinna vinnu heiman frá sér.

„Ef þú treystir einhverjum til að vera í vinnu, jafnvel fara fyrir fjármagni og stýra verkefni upp á tugmilljónir, af hverju treystir þú honum ekki til að vinna heima hjá sér? Það er auðveldast að mæla hvað þú varst lengi á skrifstofunni frekar en að mæla hvað þú gerðir í vinnunni.“

23 mínútur að ná fókus eftir truflun

„23 mínútur og 15 sekúndur er tíminn sem það tekur að ná fókus eftir truflun,“ segir hann en það er samkvæmt nýlegri rannsókn Háskólans í Kaliforníu í Irvine.
„Það getur verið fundur eða bara kollegi sem dettur á borðið hjá þér og spyr – er ég að trufla?“ segir hann, en fundir eru eitt af því sem mögulega er hægt að hafa áhrif á.

Það er slæmt þegar fólk þarf að vera lengur í vinnunni, eftir fimm þegar það fær loksins vinnufrið, eða þarf að koma í vinnuna um helgar til að klára einhverjar skuldir.

„Það er slæmt þegar fólk þarf að vera lengur í vinnunni, eftir fimm þegar það fær loksins vinnufrið, eða þarf að koma í vinnuna um helgar til að klára einhverjar skuldir,“ segir Steinar en viðtalið í heild sinni er hægt að lesa hér.

Þú gætir haft áhuga á þessu

Meiri orka fyrir heilsurækt...

Lesa meira

Þurfum tíma til að bara vera...

Lesa meira

Fékk heilablóðfallþegar hann var einn á næturvakt...

Lesa meira